Fagráð um kynferðisbrot

Með skipan fagráðs og setningu reglna um meðferð kynferðisbrota hefur kirkjan mótað stefnu sína um hvernig brugðist skuli við, komi upp grunur um slík brot í tengslum við kirkjulegt starf.

Upplýsingar um Fagráð um meðferð kynferðisbrota

Ef þú vilt leggja fram kvörtun vegna kynferðisbrots
Ef þú vilt leggja fram kvörtun vegna kynferðisbrots /áreitni af hálfu starfsmanns þjóðkirkjunnar skaltu setja þig í samband við fulltrúa í fagráði um meðferð kynferðisbrota innan íslensku þjóðkirkjunnar. Fagráð virkjar talsmann sem á fund með þér (meintum þolanda) og leiðbeinir um framhald mála í samvinnu við Fagráð.

Ef mál varðar barn skal því tafarlaust vísað til barnaverndarnefndar og biskupi gert kunnugt um málið.

Póst til fagráðsins má senda á netfangið kynferdisbrot@kirkjan.is.

Hvað er kynferðisbrot?

Kynferðislegt ofbeldi er misnotkun á annarri manneskju þar sem gerandinn beitir eða hótar að beita ofbeldi eða þvingar þolanda á annan hátt kynferðislega. Þessi misnotkun getur verið allt frá káfi, þukli og klúru orðbragði upp í fullframið nauðgunarbrot í skilningi refsilaga.

Kynferðisleg áreitni er óvelkomin kynferðisleg hegðun sem skapar auðmýkjandi eða fjandsamlegar aðstæður til vinnu, náms eða félagslegrar samvinnu hvort sem áreitnin er líkamleg, orðbundin eða myndræn. Kynferðisleg áreitni felur í sér samskipti sem einkennast af misnotkun á valdi, styrkleika eða stöðu þar sem kynferði þolandans er í brennidepli. Það sem greinir slíka framkomu frá daðri, vinahótum og vinsamlegri stríðni er að hún er í óþökk þess sem fyrir henni verður, hún er ekki gagnkvæm og ekki á jafnréttisgrundvelli.

(Úr 1. grein starfsreglna um meðferð kynferðisbrota innan íslensku þjóðkirkjunnar)

Leiðbeiningar til prests eða þess sem hefur orðið kynferðisbrots áskynja innan þjóðkirkjunnar
Með setningu starfsreglna 739/1998 og skipan fagráðs, setti kirkjuþing ramma sem ákvarðar hvernig unnið skuli úr umkvörtunum um kynferðisbrot af hálfu starfsmanna íslensku þjóðkirkjunnar.
Reglur þær og leiðbeiningar sem hér er að finna taka aðeins til meintra brota sem framin eru af starfsmanni kirkjunnar, hvort sem um er að ræða einstakling í fastri stöðu, tímabundinni stöðu eða sjálfboðaliðastarfi sem viðkomandi gegnir á vegum þjóðkirkjunnar eða safnaða hennar.
Óheimilt er að afgreiða í söfnuði eða sóknarnefnd mál sem varða ætlað kynferðisbrot sbr. 6. grein starfsreglna 739/1998. Öllum málum sem varða ætlað kynferðisbrot skal vísað til fagráðs.
Stuðningur við meintan geranda og/eða fjölskyldu hans og samstarfsaðila. Í 8. gr. starfsreglna um meðferð kynferðisbrota innan íslensku þjóðkirkjunnar er kveðið á um að veita skuli meintum geranda sálgæslu, sem og fjölskyldu hans og þeim sem eru í mikilvægu samstarfi við viðkomandi. Sálgæsla þessi er á ábyrgð kirkjulegra yfirvalda og er hvatt til þess að hún verði veitt af presti í heimahéraði, innan sóknar eða prófastsdæmis eftir því sem við á hverju sinni.

Skipan fagráðs

Elína Hrund Kristjánsdóttir, sóknarprestur, formaður

Halla Bachmann, lögfræðingur

Sigurður Rafn A. Levy, sálfræðingur

Varamenn:

Kjartan Örn Sigurbjörnsson, sjúkrahúsprestur

Vilborg Guðnadóttir, hjúkrunarfræðingur

Hlutverk

Fagráðið er skipað þremur einstaklingum er hafa sérþekkingu á kynferðisbrotum. Skal einn ráðsmanna vera lögfræðingur,

annar guðfræðingur og sá þriðji með menntun á sviði heilbrigðis- eða félagsvísinda.
Hlutverk fagráðs er m.a.:
     að tilnefna talsmenn (sjá hér til hliðar) og veita þeim faglegan stuðning,
        að fjalla um einstök mál sem vísað er til ráðsins
        af öðrum, s.s. úrskurðar- eða áfrýjunarnefnd Þjóðkirkjunnar,
        að hafa umsjón með fræðslu um kynferðisbrot innan kirkjunnar í samvinnu við fræðslusvið hennar,
        að sinna forvörnum á sviði kynferðisbrota.

Starfsreglur

Starfsreglur um meðferð kynferðisbrota innan íslensku þjóðkirkjunnar eru aðgengilegar hér á vefnum undir liðnum Lög og reglur.

Nánar

Barnaverndarlög