Ný prestakallaskipan

Biskupafundur hefur undanfarið unnið að stefnumótun um nýskipan prestakalla á landsvísu.

Helstu áhersluatriði eru sem hér segir: 

    Óbreyttur fjöldi presta í nýjum stækkuðum prestaköllum.

    Sóknaskipan óbreytt.

    Héraðsmódelið svokallaða er fyrirmyndin, en hún er byggð á samvinnu presta og sérstakri ábyrgð hvers og eins á ákveðnum sóknum í prestakallinu og ábyrgð hvers og     eins í ákveðnum málaflokkum. Nafngift þessi á rætur að rekja til sameiningar fjögurra prestakalla á Héraði á Austurlandi.

Meginreglan verði sú að í hverju prestakalli séu starfandi að lágmarki þrír prestar.

Frá því geta þó verið frávik þar sem aðstæður eru breytilegar eftir prestaköllum. Þannig verða um sinn einhver prestaköll áfram einmenningsprestaköll eða sóknarprestur og einn prestur þjóna sama kallinu.

Kostir stærri prestakalla eru

    a) betri og fjölbreytilegri þjónusta fyrir sóknarbörn, sem fá aðgang að fleiri prestum
    b) meiri sérhæfing prestsþjónustunnar
    c) betra starfsumhverfi prestanna með jöfnun þjónustubyrði
    d) betri nýting fjármuna og annarra auðlinda

Skipan prestakalla þjóðkirkjunnar og stærð þeirra hefur áhrif á samstarf presta og þjónustu við sóknarbörn. Með stækkun prestakalla hyggst þjóðkirkjan ná enn frekar því meginmarkmiði sínu að efla boðun fagnaðarerindisins í orði og verki.
Með stækkun prestakalla munu flest einmenningsprestaköll heyra sögunni til. Samstarf presta mun eflast og möguleikar sóknarbarna á bættari og sérhæfðari þjónustu í hverju prestakalli munu aukast.

Kirkjuþing 2010 samþykkti megináherslur sem fram voru settar í skýrslu nefndar um heildarskipan þjónustu kirkjunnar. Kirkjuþing 2010 samþykkti þá framtíðarsýn á starfsháttum kirkjunnar sem felast í samstarfssvæðum sókna, skilgreiningu á grunnþjónustu kirkjunnar og samþættingu við samþykktir um innri málefni kirkjunnar. Þar er lagt upp með að inntak þjónustunnar, umgjörð og skipulag skuli hverfast um eftirfarandi fimm þætti: 1. Helgihald 2. Boðun og fræðslu 3. Kærleiksþjónustu, 4. Sálgæslu og hjálparstarf, 5. Menningu og listir, staðbundna þjónustu og nýjar leiðir.

Um þjónustubyrði á hvern prest skal líta til eftirtalinna atriða:

    •Í kirkjujarðasamkomulaginu frá 10. janúar 1997 (60. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997) er mannfjöldaviðmið sett varðandi fjölgun eða     fækkun prestsembætta, þar er miðað við 5000 manns. Þ.e.a.s. fjölgi skráðum meðlimum þjóðkirkjunnar um 5000 skuldbindur ríkið sig til að greiða laun 1 prests til viðbótar     því sem greinir frá í samkomulaginu, hið sama á við um frekari fjölgun. Fækki þjóðkirkjumönnum um 5000 fækkar embættum um 1, hið sama á við um frekari fækkun.
    •Í samþykktum um innri málefni þjóðkirkjunnar frá 2009 er fjallað um ákvæði um messuskyldu. Þar er sett viðmið um fjölda sóknarbarna, 2000 talsins, þar sem haldin skuli     almenn guðsþjónusta hvern helgan dag ársins. Séu sóknarbörn frá 750-2000 skuli að lágmarki haldin almenn guðsþjónustu annan hvern sunnudag, auk stórhátíða.
    Hið opinbera miðar við 5000 manns, varðandi fjölgun eða fækkun embætta um eitt. Þar er því samhengi á milli 5000 sóknarbarna og eins embættis. Í samþykktunum um     innri málefni þjóðkirkjunnar er lagt upp með annað viðmið er snýr að sóknarbörnum og því hve oft skal efna til almennrar guðsþjónustu. Þar er miðað við 2000 sóknarbörn.
    Þessar tölur veita því ákveðnar mælistikur þegar leggja skal upp þjónustubyrði á hvern prest, þ.e.a.s. varðandi mannfjölda. Má því ætla að einn prestur skuli að lágmarki     þjóna 2000 manns. Fleiri atriði skal jafnframt taka til skoðunar við skipun prestakalla og ákvörðun á þjónustubyrgði, svo sem fjölda sókna innan prestakalls, hvernig     samgöngum er háttað og færð á vegum, sérstaða helgistaða og annað.
    Tillögurnar nú um stækkun prestakalla byggjast á ofangreindum samþykktum kirkjuþings og samþykktum um innri málefni kirkjunnar. Eftir sem áður er sóknin grunneining     þjóðkirkjunnar og starfsvettvangur hennar á hverjum stað, sjálfstæð fjárhagsleg og félagsleg eining. Með þessum tillögum eru ekki lagðar til neinar breytingar á     sóknarskipan.
    Sóknarprestur og prestar eru samstarfsmenn í sóknum prestakalls og ber að haga þjónustu sinni og samstarfi í samræmi við það. Báðir lúta þeir tilsjón prófasts og biskups.     Samstarf sóknarprests og presta byggist á starfsreglum, lögum og siðareglum. Prófastur annast um skiptingu starfa milli presta þar sem fleiri en einn prestur þjónar í     prestakalli og sér til þess að samið sé um það skriflega.
    Gert er að jafnaði ráð fyrir að gildistaka sameiningar geti átt sér stað við starfslok hlutaðeigandi presta eða við lok fimm ára skipunartíma. Frá þessu kunna þó að geta orðið     frávik ef aðstæður útheimta slíkt.

Breytingar til framtíðar á starfsreglum um skipulag kirkjunnar í héraði nr. 1026/2007.

1.gr. Suðurprófastsdæmi 
a.Kirkjubæjarklausturs- og Víkurprestaköll sameinast í eitt prestakall, Kirkjubæjarklausturs- og Víkurprestakall, þar sem sóknarprestur og prestur þjóna.
Prestssetur verði á Kirkjubæjarklaustri og í Vík. Tillagan er ekki á dagskrá kirkjuþings 2018 og verður rædd nánar við hlutaðeigandi.
b.Breiðabólstaðar-, Fellsmúla- og Oddaprestaköll sameinast í Breiðabólstaðar- og Oddaprestakall þar sem sóknarprestur og tveir prestar þjóna. Prestssetur verði á Breiðabólstað og í Odda. Tillagan er ekki á dagskrá kirkjuþings 2018 og verður rædd nánar við hlutaðeigandi.
c.Eyrarbakka-, Hveragerðis, Selfoss- og Þorlákshafnarprestaköll sameinist í eitt prestakall, Árborgar- og Ölfussprestakall, þar sem sóknarprestur og fjórir prestar þjóna.
d.Hruna- og Skálholtsprestaköll sameinist í eitt prestakall, Hruna- og Skálholtsprestakall þar sem sóknarprestur og einn prestur þjóna. Prestssetur verði í Skálholti og í Hruna. Tillagan er ekki á dagskrá kirkjuþings 2018 og verður rædd nánar við hlutaðeigandi.

2.gr. Kjalarnesprófastsdæmi 
c.Grindavíkur-, Njarðvíkur-, Keflavíkur- og Útskálaprestaköll sameinast í eitt prestakall, Reykjanesprestakall, þar sem sóknarprestur og fimm prestar þjóna. Tillagan er ekki á dagskrá kirkjuþings 2018 og verður rædd nánar við hlutaðeigandi.
c.Hafnarfjarðar-, Víðistaða- og Tjarnaprestaköll sameinast í eitt prestakall, Hafnarfjarðarprestakall, þar sem sóknarprestur og fjórir prestar þjóna. Tillagan er ekki á dagskrá kirkjuþings 2018 og verður rædd nánar við hlutaðeigandi.

3. gr. Reykjavíkurprófastsdæmi vestra 
a. Bústaða- og Grensásprestaköll sameinast í eitt prestakall, Fossvogsprestakall, þar sem sóknarprestur og tveir prestar þjóna.
b. Ás-, Langholts- og Laugarnesprestaköll sameinast í eitt prestakall, Laugardalsprestakall, þar sem sóknarprestur og þrír prestar þjóna. Tillagan er ekki á dagskrá kirkjuþings 2018 og verður rædd nánar við hlutaðeigandi.
c. Dómkirkju-, Hallgríms- og Háteigsprestaköll sameinast í eitt prestakall, Miðborgarprestakall, þar sem sóknarprestur og fjórir prestar þjóna. Tillagan er ekki á dagskrá kirkjuþings 2018 og verður rædd nánar við hlutaðeigandi.

4. gr. Reykjavíkurprófastsdæmi eystra 
a. Digranes-, Hjalla-, Kársnes- og Lindaprestaköll sameinast í eitt prestakall, Kópavogsprestakall, þar sem sóknarprestur og sjö prestar þjóna. Tillagan er ekki á dagskrá kirkjuþings 2018 og verður rædd nánar við hlutaðeigandi.
b. Breiðholts-, Fella- og Hóla- og Seljaprestaköll sameinast í eitt prestakall, Breiðholtsprestakall, þar sem sóknarprestur og fjórir prestar þjóna. Tillagan er ekki á dagskrá kirkjuþings 2018 og verður rædd nánar við hlutaðeigandi.
c. Árbæjar-, Grafarholts- og Grafarvogsprestaköll sameinast í eitt prestakall, Árbæjar- og Grafarprestakall, sem sóknarprestur og sjö prestar þjóna. Tillagan er ekki á dagskrá kirkjuþings 2018 og verður rædd nánar við hlutaðeigandi.

5. gr. Vesturlandsprófastsdæmi 
a. Garða- og Saurbæjarprestaköll sameinast í eitt prestakall, Hvalfjarðarprestakall, þar sem sóknarprestur og tveir prestar þjóna. Prestssetur verði í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd. Tillagan er ekki á dagskrá kirkjuþings 2018 og verður rædd nánar við hlutaðeigandi.
b. Borgar-, Hvanneyrar-, Reykholts- og Stafholtsprestaköll sameinast í eitt prestakall, Borgarfjarðarprestakall, þar sem sóknarprestur og þrír prestar þjóna. Prestssetur verði á Borg, í Reykholti og Stafholti. Tillagan er ekki á dagskrá kirkjuþings 2018 og verður rædd nánar við hlutaðeigandi.
c. Ólafsvíkur- og Ingjaldshóls-, Setbergs-, Staðastaðar- og Stykkishólmsprestaköll sameinast í eitt prestakall, Snæfellsnesprestakall, þar sem sóknarprestur og þrír prestar þjóna. Syðstu sóknir Staðarstaðarprestakalls fari undir Borg. Prestssetur verði í Ólafsvík, á Grundarfirði, Staðastað og í Stykkishólmi. Tillagan er ekki á dagskrá kirkjuþings 2018 og verður rædd nánar við hlutaðeigandi.

6. gr. Vestfjarðaprófastsdæmi 
a.Hólmavíkur- og Reykhólaprestaköll sameinist í eitt prestakall, Breiðafjarðar- og Strandaprestakall, þar sem sóknarprestur og einn prestur þjóna. Prestssetur verði á Hólmavík og Reykhólum.
b. Bolungarvíkur-, Holts-, Ísafjarðar- og Þingeyrarprestaköll sameinist í eitt prestakall, Vestfjarðaprestakall, þar sem sóknarprestur og þrír prestar þjóna. Prestssetur verði í Bolungarvík, Holti og á Þingeyri. Tillagan er ekki á dagskrá kirkjuþings 2018 og verður rædd nánar við hlutaðeigandi.

7. gr. Húnavatns- og Skagafjarðarprófastsdæmi 
a) Melstaðar-, Hvammstanga-, Skagastrandar- og Þingeyrarklaustursprestaköll sameinist í eitt prestakall, Húnavatnsprestakall, þar sem sóknarprestur og þrír prestar þjóna. Prestssetur verði á Melstað, Hvammstanga og Skagaströnd. Tillagan er ekki á dagskrá kirkjuþings 2018 og verður rædd nánar við hlutaðeigandi.
b) Glaumbæjar-, Hofsós- og Hóla-, Miklabæjar- og Sauðárkróksprestaköll sameinist í eitt prestakall, Skagafjarðarprestakall, þar sem sóknarprestur og þrír prestar þjóna. Prestssetur verði í Glaumbæ, á Hofsósi og á Miklabæ. Tillagan er ekki á dagskrá kirkjuþings 2018 og verður rædd nánar við hlutaðeigandi.

8. gr. Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi 
a) Akureyrar- og Laugalandsprestaköll sameinist í eitt prestakall, Eyjafjarðarprestakall, þar sem sóknarprestur og tveir prestar þjóna. Prestssetur verði á Syðra- Laugalandi.
b) Ólafsfjarðar- og Siglufjarðarprestaköll sameinist í eitt prestakall, Fjallabyggðarprestakall, þar sem sóknarprestur og einn prestur þjóna. Prestssetur verði á Ólafsfirði og Siglufirði. Tillagan er ekki á dagskrá kirkjuþings 2018 og verður rædd nánar við hlutaðeigandi.
b) Húsavíkur-, Grenjaðarstaða- og Skútustaðaprestaköll sameinist í eitt prestakall, Þingeyjarprestakall, þar sem sóknarprestur og tveir prestar þjóna. Prestssetur verði á Grenjaðarstað og Skútustöðum. Tillagan er ekki á dagskrá kirkjuþings 2018 og verður rædd nánar við hlutaðeigandi.
c) Skinnastaðar- og Langanesprestaköll sameinist í eitt prestakall, Skinnastaðar- og Langanesprestakall, þar sem sóknarprestur og einn prestur þjóna. Prestssetur verði á Skinnastað og Þórshöfn.

9. gr. Austurlandsprófastsdæmi 
a) Djúpavogs-, Heydala-, Kolfreyjustaðar-, Eskifjarðar- og Norðfjarðarprestaköll sameinist í eitt prestakall Austfjarðaprestakall, þar sem sóknarprestur og fjórir prestar þjóna. Prestssetur verði á Djúpavogi, í Heydölum og á Fáskrúðsfirði.

Þau prestaköll sem ekki er getið um í ofangreindum tillögum eru óbreytt. 

 

Athugasemdir / umsagnir sendist á kirkjan hjá kirkjan.is Vinsamlegast setjið heiti prófastsdæmis í titillínu tölvupósts og / eða orðin "Almennar athugasemdir" ef við á