Um Kirkjuþing

Starfsemi

Kirkjuþing starfar á grundvelli laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78 frá 1997. Samkvæmt ákvæðum þeirra fer það með æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar innan lögmæltra marka, þ.e. nema önnur ákvæði þeirra eða annarra laga mæli fyrir um annað.

Kirkjuþing

Forseti kirkjuþings boðar kirkjuþing árlega saman til fundar á haustmánuðum með eigi skemmri fyrirvara en eins mánaðar.
Kirkjuþing starfar allt að tveimur vikum í senn. Heimilt er að gera allt að sex mánaða hlé á þingfundum milli umræðna eða áður en síðari umræðu um þingmál lýkur.

Óski þriðjungur kjörinna kirkjuþingsmanna eftir er forseta skylt að kalla aukakirkjuþing saman án ástæðulausrar tafar. Þá er forseta heimilt að boða til aukakirkjuþings þegar brýna nauðsyn ber til. Skylt er kirkjuþingsmönnum að sækja alla þingfundi nema nauðsyn banni eða leyfi forseta komi til. Í forföllum kirkjuþingsmanns skal ávallt kalla til varamann hans, hafi tilkynning um forföll borist skriflega til forseta eigi síðar en einni viku fyrir boðaðan þingfund. Á þinginu starfa allsherjar-, fjárhags- og löggjafarnefnd og eiga allir fulltrúar, nema forseti, sæti í einhverri þeirra.

Á kirkjuþingi eiga sæti 29 kjörnir fulltrúar, 12 vígðir menn og 17 leikmenn, auk þess biskup Íslands, tveir vígslubiskupar og einn fulltrúi guðfræðideildar Háskóla Íslands með málfrelsi og tillögurétt. Hinir kjörnu fulltrúar eru kosnir í níu kjördæmum, sem ná yfir eitt eða fleiri prófastsdæmi og úr hverju þeirra kemur einn vígður maður og einn leikmaður, nema úr þremur þeim fjölmennustu, tveimur Reykjavíkurprófastsdæmum og Kjalarnessprófastsdæmi. Þar eru tveir vígðir menn og þrír leikmenn úr hverju kjördæmi. Auk þess eru tveir leikmenn fyrir Eyjarfjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi og tveir leikmenn fyrir Suðurprófastsdæmi.

Með þjóðkirkjulögunum frá 1997 var kirkjuþingi fengin heimild til að skipa með starfsreglum flestum þeim málefnum, sem áður var gert með lögum frá Alþingi eða reglugerðum frá kirkjumálaráðuneytinu. Á fyrstu þremur kirkjuþingunum eftir lagabreytinguna voru settar starfsreglur um mikilvægustu stofnanir og verkefni kirkjunnar.

Þá er kirkjuþingi falið að annast stefnumörkun á ýmsum sviðum kirkjunnar, nema annað sé tekið fram í lögunum. Um sum verkefni skal hafa samráð við prestastefnu.

Kirkjuþing fjallar um reikninga, sem það skal sjá til að hljóti fullnægjandi endurskoðun, og fjárhagsáætlanir. Með ályktunum getur þingið sett fram tillögur og ábendingar um þau atriði, sem það telur að betur megi og þurfi að fara. Kirkjuráði er hins vegar með lögum falin að öðru leyti ábyrgð á fjármálum. Kirkjuþing kýs fjóra fulltrúa í kirkjuráð, sem fer með framkvæmdavald kirkjunnar undir forsæti Biskups Íslands.

Kirkjuþing getur haft frumkvæði að frumvörpum til laga um kirkjuleg málefni og beint þeim tilmælum til ráðherra að þau verði flutt á Alþingi. Ennfremur leitar ráðherra umsagnar og tillagna kirkjuþings um lagafrumvörp um kirkjuleg málefni er hann hyggst flytja á Alþingi.

Forseti og varaforsetar

Forseti Kirkjuþings er kjörinn til fjögurra ára úr röðum leikmanna á fyrsta fundi nýkjörins Kirkjuþings. Varaforsetar Kirkjuþings eru kosnir til eins árs í senn og koma þeir einnig úr röðum leikmanna. Kosnir eru tveir skrifarar úr hópi kirkjuþingsmanna.

Kirkjuráð

Kirkjuráð er, auk biskups Íslands, sem er forseti ráðsins, skipað fjórum mönnum, tveimur guðfræðingum og tveimur leikmönnum, sem kirkjuþing kýs. Kirkjuráð fer með framkvæmdavald í málefnum þjóðkirkjunnar eftir markaðri stefnu laga og samþykkta kirkjuþings. Ráðið fer með framkvæmd þeirra sameiginlegu verkefna þjóðkirkjunnar sem lög og stjórnvaldsreglur ætla því og erinda sem vísað er til þess, m.a. af hálfu kirkjuþings, prestastefnu, samtökum leikmanna, Alþingis og ráðherra. Starfsreglur um kirkjuráð nr. 817/2000, sbr. starfsrgl. nr. 786/2002, nr. 1005/2005, nr. 1030/2007, nr. 954/2010, nr. 1036/2012, nr. 306/2016 og nr. 1293/2016. 1. gr. Kirkjuráð starfar á grundvelli laga nr. 78/1997 um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar. 2. gr.

Forsætisnefnd

Forseti og varaforsetar mynda forsætisnefnd Kirkjuþings. Er hún forseta til aðstoðar við stjórn þingsins. Forsætisnefnd gerir tillögur um fulltrúa til þeirra trúnaðarstarfa sem kosið skal til á Kirkjuþingi.

Fastar þingnefndir

Fastar þingnefndir Kirkjuþings eru kjörnar í upphafi hvers Kirkjuþings og gildir kosningin uns kosið hefur verið til nefndanna að nýju á næsta Kirkjuþingi á eftir. Formenn þeirra skulu kosnir á þingfundi. Kjörbréfanefnd starfar þó út kjörtímabilið. 

Kjörbréfanefnd Kirkjuþings

Hún er kosin við upphaf nýkjörins Kirkjuþings. Nefndin rannsakar kjörbréf, kosningu þingmanna og kjörgengi.

Allsherjarnefnd

Allsherjarnefnd Kirkjuþings, skipuð 10 kirkjuþingsmönnum. Allsherjarnefnd fær skýrslu kirkjuráðs til umfjöllunar svo og öll önnur þingmál, sem falla utan verksviðs hinna nefndanna.

Fjárhagsnefnd

Fjárhagsnefnd Kirkjuþings, skipuð 9 kirkjuþingsmönnum. Nefndin skal fá til umsagnar fjárhagsáætlun þjóðkirkjunnar og yfirlit reikninga kirkjulegra embætta, stofnana og sjóði kirkjunnar sem séu endurskoðaðir svo og önnur mál fjárhagslegs eðlis sem fram eru borin á þinginu.

Löggjafarnefnd

Löggjafarnefnd Kirkjuþings, skipuð 9 kirkjuþingsmönnum. Nefndin skal fjalla um öll þau mál sem fram eru borin á þinginu og varða löggjöf og starfsreglur.

Aðar nefndir

Forseti Kirkjuþings getur, í samráði við biskup og formann, kallað saman fasta þingnefnd milli Kirkjuþinga ef brýna nauðsyn ber til.

Kirkjuþing getur kosið nefndir til að fjalla um einstök mál.